Frakklandsforseti vill draga menn til ábyrgðar

Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, ásamt konu sinni Cörlu Bruni-Sarkozy.
Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, ásamt konu sinni Cörlu Bruni-Sarkozy. PHILIPPE WOJAZER

„Þeim sem ábyrgð bera á fjármálakrísu heimsins ætti að refsa,“ segir Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, og kallar eftir því að leiðtogar heims viðurkenni hina alvarlegu stöðu mála. 

„Í dag eru milljónir manna sem óttast ekkert meira en að tapa fjármunum sínum, íbúðum og sparifé í bönkum,“ sagði Sarkozy í ræðu sem hann hélt þegar honum voru veitt mannúðarverðlaun Elie Wiesel-stofnunarinnar í New York. 

„Við verðum að veita fólki skýr svör. Svara því hverjir bera ábyrgðina. Og sýna að þeir sem hana beri verði dregnir til ábyrgðar og refsað,“  sagði Sarkozy án þess að tilgreina nákvæmlega hverja hann vildi draga til ábyrgðar.

„Ef við tölum ekki skýrt þá getum við ekki skapað stöðugleika í heiminum. Kannski myndi gagnast best ef leiðtogar viðurkenndu alvarleika stöðunnar og töluðu tæpitungulaust um þessi mál.“

Franski forsetinn hefur þótt afar þögull um fjárhagskrísuna sem skakið hefur Wall Street síðustu vikuna. Margir eiga þó von á því að hann muni gera fjármálavanda heims að umtalsefni í ræðu sinni á aðalfundi Sameinuðu þjóðanna í dag. Vitað er að hann hyggst þar ræða um nauðsyn þess að innleiða aukið viðskiptasiðgæði, auk þess sem hann telur mikilvægt að einblína fremur á framleiðni en spákaupmennsku. 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka