Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, sagði í ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í kvöld, að nokkur yfirgangsríki væru að reyna að koma í veg fyrir kjarnorkuáætlun Írana. Þá sagði hann að ameríska heimsveldið væri að hruni komið.
Íran „mun standa gegn yfirganginum og hefur varið og mun halda áfram að verja rétt sinn," sagði forsetinn.
Þá gagnrýndi hann Bandaríkin og bandalagsríki þeirra og sagði þau andvíg framförum í öðrum ríkjum, reyndu að einoka tækniþróun og nota þá einokun til að beygja önnur ríki undir vilja sinn.
Íranar hafa hunsað kröfur Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja um að láta af auðgun úrans en óttast er að Íranar hafi í hyggju að koma sér upp kjarnavopnum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur í þrígang samþykkt efnahagsþvinganir gegn Íran vegna málsins en Íranar segja að kjarnorkuáætlunin sé eingöngu í friðsamlegum tilgangi.