Yfirvöld í Malasíu hafa ákveðið að hneppa einn helsta bloggara landsins í tveggja ára varðhald án dóms og laga.
Bloggarinn Raja Petra Kamaruddin, stofnandi vefjarins Malaysia Today og einn ötulasti gagnrýnandi stjórnvalda þar í landi, er af yfirvöldum sakaður um að hafa móðgað Íslam og birt á vef sínum greinar sem smáni leiðtoga landsins og dragi þannig úr tiltrú almennings á stjórnvöldum.
Kamruddin var handtekinn og sendur í Kamunting-varðhaldsfangelsi í norðurhluta landsins að skipan Marina Lee Abdullah, heimamálaráðherra Malasíu.
Að sögn Amarjit Sidhu, lögmanns Kamaruddin, er sérlega gagnrýnivert að stjórnvöld skuli hafa fyrirskipað brottflutning í varðhaldsfangelsið nóttina áður en taka átti mál hans fyrir dómstólum þar sem dómari átti að meta lögmæti handtöku hans.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stjórnvöld refsa Kamaruddin fyrir skrif hans. Árið 2001 var Kamaruddin haldið í fangelsi í 53 daga í kjölfar mikilla óeirða sem urðu í landinu þegar Anwar Ibrahim, núverandi leiðtoga stjórnarandstöðunnar, var rekinn úr embætti varaforsætisráðherra og fangelsaður.