Palin hittir þjóðhöfðingja

Sarah Palin, varaforsetaefni repúblikana í Bandaríkjunum, hóf mikla yfirreið um New York í dag til að bæta ímynd sína og slá á raddir um að hún hafi litla sem enga þekkingu á alþjóðamálum. Átti Palin fundi með Hamid Karzai, forseta Afganistans og Alvaro Uribe, forseta Kólumbíu, í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna, og ræddi einnig við Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. 

Palin fékk ekki vegabréf fyrr en á síðasta ári og hefur ekki hitt þjóðhöfðingja að máli utan að hún sat ráðstefnu með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í Anchorage á síðasta ári. Í dag hitti hún tvo forseta og til stendur að hún eigi í vikunni fundi með Mikheil Saakashvili, forseta Georgíu,  Viktor Jútsjenkó, forseta Úkraínu, Jalal Talabani, forseta Íraks, Asif Ali Zardari forseta Pakistans og Manmohan Singh, forsætisráðherra Indlands. Einnig ætlar hún að ræða við írska poppsöngvarann og mannvininn Bono.

Jaime Bermudez, utanríkisráðherra Kólumbíu, sagði við AP fréttastofuna, að þau Palin og Uribe hefðu rætt um fríverslunarsamning ríkjanna, sem enn hefur ekki verið staðfestur vegna andstöðu demókrata á Bandaríkjaþingi.

„Vandamálin á Wall Street komu einnig til umræðu," sagði Bermudez. „Hún þekkir þau mál vel."

Blaðafulltrúi Uribes sagði að fundurinn hefði staðið í 25 mínútur og verið áhugaverður og afslappaður. 

Þau Palin og Karzai ræddu saman í hálftíma. Í upphafi fundarins töluðu þau um son Karzais, sem heitir Mirwais en nafn hans þýðir Ljós hússins.

Fyrir fund Palin og Karzai sögðu starfsmenn framboðs McCains, að fréttamenn fengju ekki að vera viðstaddir upphaf fundanna. Aðeins ljósmyndarar og kvikmyndatökumenn mættu taka myndir. Fréttamenn fá jafnan að vera inni í herbergjum í upphafi funda á meðan ljósmyndarar taka myndir en svo virðist sem starfsmenn McCains hafi óttast, að blaðamenn myndu spyrja Palin einhverra spurninga.

Fréttastofur tóku þetta óstinnt upp í dag og sjónvarpsstöðin CNN, sem var að taka myndir fyrir fjölda sjónvarpsstöðva, hótaði að taka ekki myndir af fundunum. Var fréttamanni CNN þá leyft að vera inni í herberginu og á eftir sagði talskona framboðsins, að um misskilning hefði verið að ræða.

Þess hefur verið vandlega gætt á undanförnum vikum, að blaðamenn komist ekki í kallfæri við varaforsetaembættið. Palin hefur aðeins veitt eitt sjónvarpsviðtöl og ekki haldið neina blaðamannafundi. Framkvæmdastjóri framboðs McCains sagði í byrjun september að Palin muni ekki svara spurningum fréttamanna fyrr en að því komi að hún njóti tilhlýðilegrar virðingar.


Sarah Palin með Alvaro Uribe í New York í dag.
Sarah Palin með Alvaro Uribe í New York í dag. Reuters
Sarah Palin kemur af fundi með Henry Kissinger í New …
Sarah Palin kemur af fundi með Henry Kissinger í New York í kvöld. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert