Börðu yfirmanninn til bana

63 hafa verið ákærðir fyrir morð á Indlandi eftir að hópur fólks barði  fyrrum yfirmann sinn að bana. Lögregla hefur yfirheyrt 137 einstaklinga sem tóku þátt í árásinni á L.K. Chaudhary, framkvæmdastjóra ítalsks varahlutaframleiðslufyrirtækis, í útjaðri Nýju Delhi á mánudag. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Allt hafði fólkið verið rekið úr starfi hjá fyrirtækinu en árásin átti sér stað á starfsmannafundi þar sem til stóð að ræða hugsanlega endurráðningu þess. 

Lögregla segir að hugsanlegt sé að fleiri verði ákærðir síðar en auk morðákæranna hafa nokkrir verið ákærðir fyrir að taka þátt í óspektum.

Oscar Fernandes, vinnumálaráðherra Indlands, sagði á þriðjudag að hann vonaðist til að atvikið myndi verða öðrum yfirmönnum víti til varnaðar. „Það á að koma fram við starfsfólk af skilningi og varast að ganga svo nærri því að það grípi til örþrifaráða líkt og gerðist í Nodia," sagði hann. Hann baðst síðar afsökunar á þessum orðum sínum. 

Talsmaður ítalska sendiráðsins í landinu segir fyrirtækið lengi hafa búið við ógnandi framkomu sjálfskipaðra talsmanna starfsmanna þess á Indlandi og að margsinnis hafi verið leitað til yfirvalda vegna þess.

Kamal Nath, viðskiptaráðherra Indlands, segist þó vonast til þess að málið verði ekki til þess að varpa skugga á samband erlendra fyrirtækja í landinu og starfsmanna þeirra. „Það verður farið að lögum og allir brotamenn sóttir til saka," sagði hann. „Við munum ekki láta þetta sorglega og einstaka atvik verða til þess að spilla stöðu Indlands sem öruggs fjárfestingarkosts í framleiðslu."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert