McCain vill fresta kappræðum

John McCain hefur óskað eftir því að kappræðunum sem áætlaðar eru á föstudag verði frestað vegna efnahagsvandans.

Í yfirlýsingu frá McCain kemur fram að hann ætli sér að taka hlé frá kosningabaráttunni eftir morgundaginn og snúa aftur til Washington til að einbeita sér að efnahagsvanda þjóðarinnar. Hann hvetur Barack Obama til að gera slíkt hið sama.

Í ávarpi frá Barack Obama, sem hann hélt nokkru síðar, hafnaði Obama tillögu McCain um að hlé yrði gert á kosningabaráttunni. Hann sagði að kappræðurnar á föstudag væru nauðsynlegar, bandarískur almenningur þyrfti nú sem aldrei að sjá hvernig komandi forseti hyggist vinna á efnahagsvandanum. Forseti ætti að geta tekist á við mörg verkefni og því væri ekki ástæða til að setja baráttuna á ís. Ef hans yrði óskað í Washington vegna efnahagsvandans væri hann meira en tilbúinn til þess.

McCain hefur óskað eftir því að George Bush kalli til leiðtogafundar í Washington sem þeir Obama myndu báðir sækja.

Obama sagði jafnframt í yfirlýsingu sinni að tilkynning McCain væri gerð einhliða rétt eftir að hann hafi samþykkt að vinna með Obama að efnahagsvandanum, að frumkvæði þess síðarnefnda sem hafi hringt í McCain fyrr um daginn til að viðra þessa sömu hugmynd. Báðir aðilar ættu nú í samvinnu við að útfæra hugmyndina frekar.

McCain hélt ræðu í New York fyrir stundu þar sem hann sagði nauðsynlegt að bregðast strax við efnahagsvandanum með aðgerðum. „Það er ljóst að engin samstaða ríkir um tillögu ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekki trú á því að þær áætlanir sem nú eru uppi á borðinu verði samþykktar án breytinga, og við erum að brenna á tíma.“ 

John McCain vill gera hlé á kosningabaráttunni svo þeir Barack …
John McCain vill gera hlé á kosningabaráttunni svo þeir Barack Obama geti báðir notað krafta sína í baráttu við efnahagsvandann POOL
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert