Borgaryfirvöld í París sviptu í dag hulunni af nýju háhýsi sem á að byggja í suðvesturhluta borgarinnar. Háhýsið, sem verður í laginu eins og pýramídi, er það fyrsta sem verður byggt í borginni í þrjá áratugi.
Svissnesku arkitektarnir Jacques Herzog og Pierre de Meuron hönnuðu turninn, sem mun standa við hlið ráðstefnumiðstöðvarinnar Porte de Versailles, sem er fyrir sunnan Eiffel- og Montparnasse-turninn.
Þrátt fyrir að háhýsasvæði hafi risið upp í viðskiptahverfinu La Defense, sem er vestur af París, þá hefur verið bannað að byggja háhýsi í miðborg Parísar skv. ákvörðun sem var samþykkt árið 1977. Ákvörðuninni var hins vegar snúið við í júlí á þessu ári.
Bertrand Delanoe, borgarstjóri Parísar, segir að háhýsið sé umhverfisvænt og mikið augnayndi. Fasteignafyrirtækið Unibail fjármagnar framkvæmdina, en turninn á að vera tilbúinn árið 2012.
Framkvæmdir munu hefjast innan 18 mánaða. Pýramídinn mun vara 200 metra hár, og þar verða skrifstofur, ráðstefnumiðstöð og jafnvel hótel.
Í júlí sl. tók borgarráð Parísar þá ákvörðun að aflétta þriggja áratuga gömlu banni gegn byggingu háhýsa. Fram að því mátti aðeins reisa hús sem voru undir 37 metrum í miðborginni.