Matti Juhani Saari, sem myrti tíu manns í iðnskóla í Kauhajoki í Finnlandi, hringdi í vin sinn úr farsíma áður en hann svipti sig lífi.
Í frétt Berlingske Tidende kemur fram að Saari hafi sagt í símtalinu: „Ég hef myrt tíu manns. Lögreglan hefur umkringt skólann. Nú tek ég líf mitt. Vertu sæll.“ Að símtalinu loknu beindi hann vopninu að höfði sér og hleypti af.
Ekstra Bladet birtir viðtal við Ilmari Kainulainen sem hafði þekkt ódæðismanninn frá árinu 2002. Þar kom fram að Matti hafi orðið fyrir einelti í framhaldsskóla og horfið frá námi. Þeir hafi þó áfram verið vinir.
„Það var líkt og hann ætti sér dökka hlið þegar hann var fullur. Hann var árásargjarn,“ sagði Ilmari.