Pútín vill kjarnorkusamstarf við Chavez

Chavez og Pútín voru kumpánalegir í Moskvu í dag
Chavez og Pútín voru kumpánalegir í Moskvu í dag

Vladimir Pútín forsætisráðherra Rússlands sagðist í dag vera opin fyrir kjarnorkusamstarfi við Venezúela, eftir fund með Hugo Chavez forseta landsins, samkvæmt danska fréttavefnum Politiken.

„Við erum reiðubúnir að kanna möguleikann á samstarfi um friðsamlega kjarnorku,“ sagði Pútín eftir fundinn í Moskvu í dag. Leiðtogarnir tveir hittust í Rússlandi til að rökræða möguleikana á  auka enn á efnahagslega og hernaðarlega samvinnu milli landanna.

Rússar hafa undanfarið styrkt böndin við Venezúela með því að senda herflugvélar- og skip til æfinga í Suður-Ameríku. Þá hefur ríkisstjórn Chavez reynst góður kúnni fyrir vopnaframleiðslu Rússa, sem hefur afgreitt milljarðapantanir frá Venezúela síðan 2005.

Varla er tilviljun að fundur leiðtoganna tveggja komi einmitt upp nú, þegar samskipti Bandaríkjanna og Rússlands eru stirðari en þau hafa verið árum saman, en Bandarísk stjórnvöld hafa verið mjög gagnrýnin á innrás Rússa í Georgíu. Samskiptin munu varla batna með vaxandi kærleikum milli Pútín og Chavez, sem er svarinn andstæðingur Bandaríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert