Bandaríska dagblaðið The Seattle Times segir í dag að víst hafi Sarah Palin, varaforsetaefni McCain, hitt þjóðarleiðtoga þótt hún hafi haldið öðru fram. Blaðið rifjar upp fund Palin og Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands í Alaska í fyrra.
Ferð Palin til New York í þessari viku var sögð vera fyrsta tækifæri hennar til að hitta erlenda þjóðarleiðtoga. Fyrr í þessum mánuði sagði hún í samtali við Charles Gibson hjá ABC fréttastofunni að sem ríkisstjóri Alaska hefði hún aldrei hitt leiðtoga annarrar þjóðar.
Þarna varð Palin á í messunni því í október í fyrra hitti hún Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, í Anchorage í Alaska. Ólafur Ragnar var þá ræðumaður á þingi um orkumál á norðurheimsskautssvæðinu og átti síðan fund með ríkisstjóranum. Þau ræddust við í tæpa klukkustund og töluðu m.a. um jarðhita og sérþekkingu Íslendinga í að nýta hann. „Grímsson er þjóðhöfðingi, ég veit það,“ er haft eftir Mead Treadwell repúblikana frá Alaska og sérfræðingi í norðurhjaramálefnum sem sat fundinn. „Við eigum myndir af þeim sem teknar voru á fundinum.“
Forseti Íslands er nú aftur staddur í Anchorage og sækir þar þing um málefni norðurheimsskautssvæðisins. Að sögn The Seattle Times hitti hann Sean Parnell staðgengil ríkisstjórans því Palin ríkisstjóri var stödd annars staðar í Bandaríkjunum.