Forsetaframbjóðendurnir Barack Obama og John McCain deildu helst um hvernig væri best að bjarga Bandaríkjunum út úr þeim erfiðleikum sem landið glímir við á fjármálamörkuðum, uppbyggingu efnahag landsins á ný og varnarmál Bandaríkjanna, í fyrstu kappræðu þeirra sem fram fór í nótt.
Fylgi frambjóðendanna er svipað og margir hafa ekki gert upp hug sinn enn fyrir forsetakosningarnar sem fram fara í nóvember þannig að þeir áttu möguleika á að sópa til sín fylgismönnum í kappræðunum sem var sjónvarpað beint um öll Bandaríkin frá University of Mississippi. Fréttaskýrendur telja hins vegar að hvorugum frambjóðandanum hafi tekist það og þegar einungis fimm vikur eru til kosninga þá er stór hluti þjóðarinnar enn óviss um hvor frambjóðandinn verður fyrir valinu.
Obama og McCain ítreku helstu kosningamál sín og slagara úr kosningabaráttunni. McCain sagði að hann myndi lækka skatta og stöðva óheyrileg fjárútlát hjá hinu opinbera. Obama reyndi að tengja andstæðinginn við þá erfiðleika sem dynja yfir í Bandaríkjunum og að stefnan í efnahagsmálum hafi ekki gengið upp hjá ríkisstjórn George W. Bush.
Innrásin í Írak skortur á dómgreind
McCain sagði að Obama hefði hvorki þekkingu né reynslu til þess að halda Bandaríkjunum óhultum. Obama skaut strax til baka á McCain og spurði hann hvort það hafi ekki verið einhver skortur á dómgreind hjá McCain að styðja innrásina inn í Írak og senda hermenn frá Afganistan þangað.
„Þú sagðir að þetta yrði fljótlegt og auðvelt. Þú sagðir að við vissum hvar gereyðingarvopnin væru geymd. Þú hafðir rangt fyrir þér," sagði Obama og bætti við. „Þú sagðir að við yrðum hylltir sem bjargvættir. Þú hafðir rangt fyrir þér. Þú sagðir að engar heimildir væru um átök milli síja og súnnía í sögunni og þú hafðir rangt fyrir þér."
Obama gagnrýndur vegna forseta Írans
McCain gagnrýndi Obama fyrir að hafa sagt að hann myndi setjast niður með forseta Írans, Mahmoud Ahmadinejad, án nokkurra skilyrða. „Næ ég þessu á réttan hátt. Við eigum að setjast niður með Ahmadinejad, sem segir: Við ætlum að þurrka Ísrael út af jörðinni og við svörum: Nei það ætlar þú ekki að gera, gerðu það," sagði McCain.
Báðir gagnrýndu þeir innrás Rússa inn í Georgíu og sögðust styðja inngöngu Georgíu og Úkraínu í Atlantshafsbandalagið.