Könnun sem sjónvarpsstöðin CNN gerði í Bandaríkjunum gefur til kynna að Barack Obama forsetaframbjóðandi hafi komið betur út úr fyrstu kappræðunum við John McCain sem fram fóru í nótt. Langflestir þátttakendanna í könnuninni voru sammála um að báðir myndu standa sig prýðisvel í forsetaembættinu.
Könnunin gefur reyndar ekki nákvæma sýn á skoðun Bandaríkjamanna í heild þar sem aðeins þeir tóku þátt sem fylgdust með kappræðunum og voru fleiri áhorfendanna demókratar en repúblikanar. 51% þeirra sem spurðir voru töldu Obama hafa staðið sig betur en 38% sögðu McCain hafa komið betur út. Þá voru kvenkyns þátttakendurnir mun hrifnari af Obama en McCain.