Sómalskir sjóræningjar hafa sleppt úr haldi sínu egypsku skipi sem þeir rændu fyrr í mánuðinum. Um borð var 25 manna áhöfn. Er skipið nú aftur á leið til Egyptalands. Sjóræningjarnir kröfðust lausnargjalds en síðustu vikur hafa staðið yfir samningaviðræður milli þeirra og leyniþjónustu Egyptalands. Ekki er vitað hvort lausnargjaldið hafi verið greitt.
Hafsvæðið við strendur Sómalíu er talið eitt það hættulegasta í heimi hvað sjórán varðar en á fimmtudaginn var úkraínsku flutningaskipi rænt 200 sjómílum frá Sómalíu en 35 manns voru um borð. Hefur 35 milljóna dollara lausnargjalds verið krafist. Þá var skútu rænt í byrjun mánaðarins með tvo Frakka um borð og lausnargjalds krafist.