Nú þegar forsetaframbjóðendurnir Barack Obama og John McCain hafa lokið fyrstu kappræðunum sínum beinist athygli stjórnmálaskýrenda að varaforsetaefnunum. Joe Biden og Sarah Palin munu etja kappi næsta fimmtudag í Háskólanum í St. Louis í Missouri.
Kappræðanna er beðið með eftirvæntingu. Palin þykir reynslulítil en Biden hefur verið öldungardeildarþingmaður í 35 ár og hefur áratugareynslu af því að vera í kastljósi fjölmiðlanna.
Síðan Biden var útnefndur varaforsetaefni Obama fyrir rúmum mánuði hafa nærri 100 viðtöl verið tekin við hann. Palin gaf sitt þriðja stóra viðtal í síðustu viku og hefur verið gagnrýnd verulega fyrir öll þrjú.