Breska sælgætisfyrirtækið Cadbury hefur innkallað ellefu tegundir af súkkulaði sem framleiddar voru í verksmiðju fyrirtækisins í Kína. Innköllunin er varúðarráðstöfun að sögn stjórnvalda í Hong Kong og gerð vegna mengaðra mjólkurafurða sem fundist hafa í Kína. Súkkulaðið var framleitt í verksmiðju Cadbury í Peking.
Ekki er ljóst hvort prófanir hafa sýnt að efnið melamín, sem nýlega fannst í mjólkurdufti í Kína, hafi fundist í framleiðslu Cadbury. Fjögur dauðsföll hafa verið rakin til mengaðra mjólkurafurða og um 54 þúsund börn hafa fengið nýrnasteina eða aðra krankleika vegna mengaðs mjólkurdufts.