Réttur launþega skertur í Danmörku

Samkomulag yfirvalda, atvinnurekenda og verkalýðsfélaga um takmarkanir á veikindarétti verður kynnt í Danmörku í dag. Þá vinna dönsk yfirvöld nú að hugmyndum að breytingum á vinnulöggjöf sem m.a. gerir ráð fyrir að eftirlaunaaldur verði hækkaður og dagpeningaréttur takmarkaður. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Markmið breytinganna er að skapa vinnuafl, auka skatttekjur og spara í ríkisútgjöldum.  Málið er mjög umdeilt en samkvæmt staðhæfingum nefndar sem skipuð hefur verið til að móta hugmyndir í málinu eru róttækar aðgerðir nauðsynlegar eigi danska ríkið að bera sig.

„Verði ekki gripið til aðgerða mun okkur vanta 14 milljarða (danskra króna í ríkiskassann) á ári og störfum verða fækkað um 100.000 á nokkrum árum. Þetta mun einfaldlega gerast vegna þess að færri munu borga skatta og færri geta tekið að sér störfin.” segir m.a. í greinargerð nefndarinnar.

Samkvæmt hugmyndum nefndarinnar munu breytingarnar m.a. felast í því að launþegum verði fyrst mögulegt að taka við eftirlaunagreiðslum eftir 62 ára aldur en ekki eftir 60 ára aldur eins og nú er. Þá verður reglum um mótframlag ríkisins gegn einkasparnaði breytt með það að markmiði að hvetja fólk til að vinna lengur.

Nefndin leggur einnig til að annað hvort verði vinnuvikan lengd um einn klukkutíma eða frítökuréttur styttur um eina viku á ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert