Japanar enn sakaðir um atkvæðakaup í hvalveiðiráði

Fulltrúar á síðasta ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins.
Fulltrúar á síðasta ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins. AP

Ástralskir stjórnarandstöðuþingmenn hvetja nú stjórn landsins til að standa uppi í hárinu á Japönum vegna meintra atkvæðakaupa þeirra í Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Þrjár Afríkuþjóðir: Erítrea, Tansanía og Lýðveldið Kongó hafa nýlega gengið í ráðið en fulltrúar allra þessara þjóða áttu viðræður við japanska utanríkisráðuneytið í Tókýó í mars. Samkvæmt yfirlýsingu japanskra stjórnvalda var viðræðunum ætlað að auka skilning ríkjanna á sjálfbærum hvalveiðum Japana.

Ástralska dagblaðið The Age hefur eftir Greg Hunt, sem fer með umhverfismál í skuggaráðuneyti stjórnarandstöðunnar, að Kevin Rudd, forsætisráðherra, eigi að taka atkvæðakaupamálið þegar upp við japönsk stjórnvöld. Svo virðist hins vegar, sem áhyggjur Rudds af hvalveiðum hafi gufað upp um leið og hann tók við embætti forsætisráðherra í lok síðasta árs.

Talsmaður ástralska umhverfisráðuneytisins segir við blaðið, að Ástralía fagni tækifærinu að hitta ný aðildarríki hvalveiðiráðsins og ræða síðustu þróun í vísindarannsóknum á sjávarspendýrum. 

Erítrea er við Rauðahaf. Það er nú í 157. sæti af 177 á lista Sameinuðu þjóðanna þar sem löndum er raðað eftir lífsgæðum. The Age hefur eftir talsmanni Grænfriðinga, að ekkert sé vitað um afstöðu stjórnvalda í Erítreu til hvalveiða eða ástæður þess, að fátækt landbúnaðarríki vilji ganga í Alþjóðahvalveiðiráðið. 

Japanar hafa oft áður verið sakaðir um að fá smáríki til að ganga í hvalveiðiráðið og greiða þar atkvæði með hvalveiðiríkjum gegn ýmiskonar  þróunaraðstoð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert