Sjónvarpskappræðna þeirra Söruh Palin, varaforsetaefnis bandaríska Repúblikanaflokksins, og Joe Bidens, varaforsetaefnis Demókrataflokksins er beðið með talsverðri eftirvæntingu en það mun fara fram annað kvöld að bandarískum tíma. Fréttaskýrendur segja að þótt Biden hafi mun meiri reynslu en Palin megi alls ekki vanmeta hæfni ríkisstjóra Alaska í kappræðum sem þessum.
Á fréttavef BBC kemur fram, að Alaskabúar hafi fengið að sjá það í síðustu ríkisstjórakosningum fyrir tveimur árum, að Palin sé enginn aukvisi þegar kemur að kappræðum.
„Ég komst að því í kappræðunum, að það skipti engu máli þótt andstæðingar hennar hefðu mikla þekkingu á málefnunum," hefur BBC eftir Andrew Halcro, mótframbjóðanda Palin árið 2006. Hann segir að helsti styrkur Palin sé að henni takist að „fylla salinn af nærveru sinni... Hún er ótrúlega lagin við að breyta 45 sekúndna svari í alþýðlega sögu... hún hefur aldrei þurft að hafa þekkingu á málefnunum."
Halcro stundaði nám í stjórnsýslu og viðskiptum við Harvardháskóla og hefur verið þingmaður í Alaska. Hann kom því til kappræðnanna vopnaður tölulegum upplýsingum, reynslu og þekkingu. Það skipti hins vegar litlu þegar hann mætti Palin á fundum.
„Það gerðist oft, að ég og þriðji frambjóðandinn gengum niður af sviðinu hristandi höfuðið. Þetta var ekki stefnumótun heldur lýðskrum," sagði Halcro.
Í kosningunum fékk Palin 48% atkvæða, Tony Knowles, frambjóðandi demókrata fékk 40% og Halcro, sem var óháður frambjóðandi, fékk 9%.
„Ég held ekki að neinn hefði getað sigrað hana," sagði Hacro við BBC. „Þetta snérist ekki um það hvort hún vissi mikið eða lítið um málefnin. Reynska hennar skipti fólk ekki máli heldur hugsaði það: Þetta er vatnssopinn sem við þurfum á að halda."
Nú er spurningin hvort Palin nær að leika sama leikinn þegar hún stígur á stóra sviðið annað kvöld. Um það efast raunar margir, þar á meðal Richard Parker, lektor í stjórnsýsluskóla Harvard.
„Ég held að hún standi sig vel í hlutverki hokkímömmunnar frá smábænum. Það gengur frábærlega í Alaska. En hvort það sama gildi um ríki á borð við Ohio og Pennsylvaníu, þar sem margir eru skelfingu lostnir vegna efnahagsástandsins, verður að koma í ljós."