Obama: Almenningur þurfi aldrei aftur að gjalda fyrir græðgi

Barack Obama, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, hét bandarískum kjósendum því í dag að ef hann verði kjörinn forseti landsins þá þurfi bandarískir skattgreiðendur aldrei aftur að greiða fyrir græðgi og ábyrgðarleysi á Wall Street. Obama hyggst styðja frumvarpið um björgunarpakkann í öldungadeildinni í kvöld.

Öldungadeildarþingmaðurinn Obama segir að aukin ábyrgðarskylda sem felist í frumvarpinu um neyðaraðstoð upp á 700 milljarða dala verði að fá samþykki á Bandaríkjaþingi.

„Þegar ég verð forseti verða fjármálastofnanir að gera það sem þeim ber og greiða sinn hluta," sagði Obama á kosningafundi í dag. „Þetta er loforð sem ég heiti ykkur í dag og þetta er eitt þeirra loforða sem ég mun standa við sem forseti Bandaríkjanna."

Skaut Obama föstum skotum á Dick Cheney, varaforseta Bandaríkjanna og fyrrum yfirmanns Halliburton olíufélagsins, í ræðunni er hann sagði daga góðra samninga fyrir Halliburton og annarra í Washington vera liðna og að skattfé almennings muni ekki lengur renna í vasa auðugra forstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka