Spænska lögreglan hefur handtekið 121 í máli sem þeir lýsa sem stærsta barnaníðsmáli í sögu Spánar. Í yfirlýsingu frá lögreglunni í morgun kemur fram að komið hafi verið upp um glæpahring sem dreifði barnaklámi í 75 löndum. Kemur fram að brasilíska lögreglan hafi komið að aðgerðinni en fólkið var handtekið víðsvegar um Spán. Rannsókn málsins hófst í júlí, samkvæmt spænskum fjölmiðlum í dag.
Tveir þeirra sem voru handteknir framleiddu sjálfir barnaklám og notuðu til þess börn úr eigin fjölskyldum við gerð klámefnis.
Alls tóku rúmlega 800 lögregluþjónar þátt í aðgerðunum og var lagt hald á 347 harða diska, 1.186 geisla- og mynddiska og 36 fartölvur.