Wojciech Jaruzelski sem var einvaldur í Póllandi á tímum sovétkommúnismans sagðist ekki hafa brotið landslög er hann lét setja herlög í landinu í desember 1981 með það eitt fyrir augum að brjóta á bak aftur uppreisn verkalýðsfélagsins Einingar eða Solidarnos.
„Ég er ekki sekur af þeim ásökunum sem saksóknari ber á mig og tel þær ekki vera á rökum reistar," sagði hinn 85 ára gamli Jaruzelski í dag en hann las upp varnarræðu sína sem mun hafa verið um 200 blaðsíður að lengd.
„Afstýrði stórslysi"
Jaruzelski sagði að það hefði verið umdeild og erfið ákvörðun að setja á herlög en að það hafi verið réttlætanlegt vegna utanaðkomandi aðstæðna og sagði hann að það hefði gert yfirvöldum kleift að afstýra stórslysi.
Hann sagði að með þessu hefði verið komið í veg fyrir sovéska innrás í landið sem hefði án efa orðið viðbrögð risans í austri við andkommúnistískri uppreisn Sameiningar á spennuþrungnum tíma kalda stríðsins.