Lófatölvu var stolið í innbroti í hús sem breska leyniþjónustan, MI5, er með á leigu í Manchester um helgina. Lögregla í borginni hefur staðfest að tölvunni hafi verið stolið þegar brotist var inn í húsið en í henni voru dulkóðuð gögn að finna sem tilheyra leyniþjónustunni.
Undanfarið hafa ítrekað komið upp mál þar sem gögn leyniþjónustunnar hafa lekið út og segja bresk dagblöð frá því í dag að lögregla sé nú að rannsaka sölu á myndavél á eBay en talið er að í vélinni séu myndir af meintum hryðjuverkamönnum sem leyniþjónustan hefur safnað.
Í júní var greint frá því að njósnari hjá leyniþjónustunni hefði gleymt leyniskjölum með upplýsingum um al-Qaida hryðjuverkasamtökin og írösku öryggislögregluna í lest í Lundúnum.