George W. Bush, Bandaríkjaforseti, staðfesti í kvöld með undirskrift sinni lög sem fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag um björgunaráætlun fyrir bandaríska fjármálakerfið. Öldungadeild þingsins samþykkti lagafrumvarpið fyrr í vikunni. Verð á hlutabréfum hefur samt lækkað á Wall Street í kvöld.
Forsetinn skrifaði undir lögin á skrifborði sínu í Hvíta húsinu og var blaðaljósmyndurum boðið að vera viðstaddir. Áður hafði Bush komið við í fjármálaráðuneytinu í Washington og þakkað starfsfólki þar fyrir framlag sitt til málsins.
Henry Paulson, fjármálaráðherra, sagði að lögin væru afar mikilvæg en þau gera ráð fyrir að allt að 700 milljörðum Bandaríkjadala verði varið til að kaupa verðlítil eða verðlaus fasteignaskuldabréf af fjármálastofnunum. Paulson sagði að þegar yrði hafist handa við að framfylgja aðgerðaáætlun en vildi ekki segja á þessari stundi hvernig framkvæmdin yrði.