Fulltrúadeildin samþykkti

Miðlarar í Kauphöllinni á Wall Street fylgdust grannt með atkvæðagreiðslunni.
Miðlarar í Kauphöllinni á Wall Street fylgdust grannt með atkvæðagreiðslunni. Reuters

Meirihluti þingmanna í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt frumvarp um aðgerðaáætlun Bandaríkjastjórnar til bjargar bandaríska fjármálakerfinu. Hlutabréf hækkuðu í kauphöllinni á Wall Street á meðan atkvæðagreiðslan stóð yfir.

Alls greiddu 263 þingmenn atkvæði með frumvarpinu en 171 gegn því. Mikill meirihluti demókrata var nú samþykkur frumvarpinu en meirihluti repúblikana var andvígur.

Fulltrúadeildin felldi frumvarpið á mánudag en öldungadeild þingsins samþykkti það á miðvikudag eftir að gerðar voru nokkrar breytingar á því. Fulltrúadeildin samþykkti síðan breytt frumvarp nú síðdegis og verður það nú sent til Bandaríkjaforseta til staðfestingar.

Samkvæmt frumvarpinu verður allt að 700 milljörðum dala varið til að kaupa verðlaus skuldabréf af fjármálastofnunum og auka þannig laust fé á fjármálamarkaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert