Lögregla í Danmörku hefur greint frá því að 76 ára maður sem lést eftir átök við innbrotsþjófa á heimili hans í Skovby á Jótlandi í fyrrinótt hafi verið barinn í hel.
„Krufning hefur leitt í ljós að hinn látni fékk þung högg bæði í brjóst og andlit. Þetta leiddi til þess að sjö rifbein brotnuðu. Innvortis blæðingar, aldur mannsins og ástand hjarta hans leiddu síðan til dauða hans,” segir Peter Krogh, aðstoðarlögreglustjóri á sunnanverðu Jótlandi. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende.
„Það er ekki hægt að segja til um það hvernig hann hefur fengið höggin, hvort það hafi verið spörk eða barsmíðar. Um það höfum við engar vísbendingar.” segir hann og bætir því við að engar vísbendingar liggi fyrir um það hverjir árásarmennirnir séu.
Krogh segir árásina hafa verið með þeim hrottalegustu sem hann hafi fengið til rannsóknar. „Það að ræningjar skuli ráðast inn á heimili eldri hjóna og berja eiginmanninn í hel. Það gerist varla verra í Danmörku,” segir hann.