Obama fékk þingmenn til að skipta um skoðun

Leiðtogar repúblikana í fulltrúadeildinni hvöttu í dag þingmenn flokksins til …
Leiðtogar repúblikana í fulltrúadeildinni hvöttu í dag þingmenn flokksins til að samþykkja frumvarpið. Reuters

Nokkrir þingmenn demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings segja að símtöl frá Barack Obama, forsetaframbjóðanda flokksins, hafi fengið þá til að skipta um skoðun á frumvarpi um aðgerðaáætlun til bjargar bandaríska fjármálakerfinu. Umræða er hafin í fulltrúadeildinni um frumvarpið.

Bæði Donna Edwards og Elijah Cummings, þingmenn demókrata í Maryland, segjast hafa fengið símtöl frá Obama en þau greiddu atkvæði gegn frumvarpinu þegar það kom til atkvæða í fulltrúadeildinni á mánudag. Öldungadeild þingsins samþykkti frumvarpið á miðvikudag eftir að nokkrar breytingar höfðu verið gerðar á því. 

„Það skipti mig miklu máli, að maður sem á 50% möguleika á að verða kjörinn næsti forseti Bandaríkjanna skyldi gefa sér tíma til að hringja í mig," sagði Cummings.

Obama sagði í símtalinu, að hann myndi beita sér fyrir endurbótum á gjaldþrotalögunum til að reyna að koma í veg fyrir að húseigendur verði gjaldþrota. Þá lagði haann áherslu á að koma þyrfti fjármálakerfinu til bjargar.

Umræða er hafin um frumvarpið í fulltrúadeildinni. Nancy Pelosi, forseti deildarinnar, sagði fyrr í dag að ekki yrðu greidd um það atkvæði nema tryggt væri að það yrði samþykkt. Gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslan verði í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert