Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, lýsti því yfir í París í dag að koma beri í veg fyrir að nokkur stór banki fari á hausinn vegna greiðsluerfiðleika.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tók í sama streng. Sagði hún það vera sérfræðinga fjármálamarkaðarins að finna lausn á yfirstandandi vanda en að stjórnvöld verði þó einnig að axla ábyrgð í þeirri erfiðu stöðu sem nú sé uppi.
Leiðtogarnir sitja nú fund í boði Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta þar sem farið er yfir erfiða stöðu á fjármálamörkuðum heimsins. Auk Þjóðverja, Breta og Frakka eiga og Ítalir einnig fulltrúa á fundinum.
Búist er við að Sarkozy muni leggja til aukið samráð á milli ríkisstjórna aðildarríkja Evrópusambandsins fyrir næsta fund G8-ríkjanna, að því er fram kemur á vef breska útvarpsins, BBC.
Segir þar að Frakkar vilji að ríkin samþykki að grípa inn til verndar evrópskum bönkum án þess þó að feta í fótspor Bandaríkjastjórnar sem hyggst verja 700 milljörðum Bandaríkjadollara til endurreisnar hagkerfisins.