Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti tilkynnti fyrir stundu að leiðtogar Breta, Frakka, Þjóðverja og Ítala hafi samþykkt á fundi sínum í París í dag að grípa til samræmdra aðgerða til að vinna að lausn þess efnahagsvanda sem nú sé uppi og að styðja það að bönkum innan Evrópusambandsins verði bjargað.
Sarkozy sagði einnig að samþykkt hefði verið á fundinum að taka tillit til þeirra sérstæðu aðstæðna sem nú séu uppi í löndum Evrópusambandsins í reglum um fjárlög aðildarríkjanna. Ekki standi þó til að stofna sérstakan björgunarsjóð líkt og gert hafi verið í Bandaríkjunum.
Þá sagði Frakklandsforseti, að á fundinum hefðu þjóðarleiðtogarnir samþykkt, að stjórnendur þeirra banka, sem bjarga þyrfti með opinberu fé, myndu sæta refsiaðgerðum og hluthafar bankanna yrðu að bera allan þunga aðgerðanna.
Samkvæmt reglum sambandsins verður fjárlagahalli aðildarríkja þess að vera innan við 3% og skuldir ríkjanna innan 60% af vergri þjóðarframleiðslu þeirra.