Palin segir Obama slæpast með hryðjuverkamönnum

Sarah Palin, varaforsetaefni bandarískra repúblíkana, sakaði Barack Obama, forsetaefni demókrata um það í dag að slæpast með hryðjuverkamönnum.

Var Palin að vísa til kynna Obama af Bill Ayers, einum af stofnendum samtakanna Weather Underground á sjöunda áratug síðustu aldar en samtökin lýstu ábyrgð á nokkrum sprengjutilræðum á hendur sér.

 Palin sagði á fjáröflunarsamkomu repúblíkana í Englewood í Colorado að Obama þætti Bandaríkin svo ófullkomin að hann „slæptist með hryðjuverkamönnum sem ráðist gegn eigin landi."

Palin sagði einnig að hún hefði verið hvött til þess af fjárhagslegum bakhjörlum framboðs McCain að berjast gegn Obama af meiri hörku en hún hafi gert hingað til

Talsmaður kosningabaráttu Obama hefur þegar sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir ummælin móðgandi en þó ekki koma á óvart í ljósi frétta af  „ómerkilegum nýjungum" í kosningabaráttu repúblíkana. „Það sem liggur fyrir er það að John McCain og Sarah Palin vilja heldur verja tíma sínum í að níða Barack Obama en að leggja grunn að áætlun um endurreisn efnahagslífsins,” segir í yfirlúýsingu  talsmannsins Hari Sevugan.  

Obama átti um tíma sæti í stjórn mannúðarsamtaka í Chicago þar sem  Ayers sat einnig. Hann hefur fordæmt framferði Ayers á hans yngri árum opinberlega en Ayer er nú háskólaprófessor.

Sarah Palin, varaforsetaefni bandarískra repúblíkana, með eiginmanni sínum og dóttur.
Sarah Palin, varaforsetaefni bandarískra repúblíkana, með eiginmanni sínum og dóttur. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert