Sarah Palin loðin um lófana

Sarah Palin með John McCain, forsetaefni bandarískra repúblíkana.
Sarah Palin með John McCain, forsetaefni bandarískra repúblíkana. AP

Sarah Palin, varaforsetaefni bandarískra repúblikana, skilaði í gær upplýsingum um fjárhag sinn eins og tilskilið er. Þótt Palin segi kjósendum oft að hún viti hvernig það sé að eiga varla fyrir reikningum kom fram að fjölskylda hennar hafði um 200 þúsund dala tekjur, jafnvirði um 22,6 milljóna króna, á síðasta ári. 

Palin, sem tók við embætti ríkisstjóra í Alaska í desember 2006 taldi fram 166.495 þúsund dala fjölskyldutekjur í skattframtali í fyrra. Í ár var upphæðin 196.531,50 dalir.

Ekki kom þar fram hvaða tekjur Todd eiginmaður hennar hafði af störfum við olíuiðnað eða fiskveiði en í fyrra námu tekjur hans af þessari starfsemi um 50 þúsund dölum, þar af var talinn fram kostnaður á móti um helmingi upphæðarinnar.

Skattskyldar tekjur hjónanna námu 125 þúsund dölum árið 2007.  Þau eiga eignir í 15 fjárfestingarsjóðum og lífeyrissparnað sem metinn er á allt að 100 þúsund dali. Þá er hús þeirra metið á bilinu 500.001 þúsund til 1 milljónar dala. Einnig eiga þau hluta af landareign og hlut í sjávarútvegsfélagi.  

Á síðasta ári greiddi fjölskyldan 24.738 dali í tekjuskatta, jafnvirði  2,8 milljóna króna en skatthlutfallið var 14,3%. 

Alls gáfu hjónin 1,5% af tekjum sínum til góðgerðarmála á síðasta ári. Þar af voru 2500 dalir, jafnvirði 282 þúsunda, í reiðufé og einnig voru ýmsir munir, sem Hjálpræðisherinn fékk að gjöf, metnir á 826 dali.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert