Sjö ríkisstarfsmenn í Anchorage í Alaska hafa skipt um skoðun og samþykkt að bera vitni í opinberra rannsókn vegna ásakanna á hendur Söruh Palin, varaforsetaefni Repúblikana, um að hún hafi misnotað vald sitt sem ríkisstjóri í hinu svokallaða „Troopergate-máli“.
Eins og áður hefur verið greint frá hefur Palin verið sökuð um að reka yfirlögreglumannin Walter Monegan úr starfi, vegna þess að hann neitaði að víkja Mike Wooten, fyrrverandi eiginmanni systur hennar, úr starfi ríkislögreglumanns í Alaska. Rannsóknin er eitt fjölmargra hneykslismála sem dregið hefur verið fram í dagsljósið eftir að tilkynnt var um að Sarah Palin hefði verið valin sem varaforsetaefni John McCain.
Sjö opinberum starfsmönnum fylkisins var stefnt til vitnisburðar í rannsókninni en þeir véfengdu stefnuna. Dómari staðfesti stefnuna hinsvegar í síðustu viku og hafa starfsmennirnir sjö því ákveðið að sættast á að koma fram sem vitni að sögn dómsmálaráðherra Alaskafylkis, Talis Colberg.
Sarah og Todd Palin hafa hvorugt svarað því hvort þau ætli sér sjálf að bera vitni fyrir rétti. Palin hefur sagt að rannsóknin sé orðin of pólitísk. Hæstiréttur Alaska hefur það nú til skoðunar taka eigi tímabundið fyrir rannsóknina þar sem rök hafa verið færð fyrir því að málinu sé hagrætt til þess að það skaði kosningabaráttu Palin sem mest.
Niðurstaðna rannsóknarinnar er að vænta nokkrum dögum fyrir forsetakosningarnar 4. nóvember.