Framboð Barack Obama, forsetaframbjóðandi bandarískra demókrata, hefur sent frá sér tölvupóst þar sem rifjuð eru upp tengsl John McCain, frambjóðanda repúblíkana, við auðjöfurinn Charles Keating á níunda áratug síðustu aldar, en Keating var fundinn sekur um svik eftir að sparifjár og lánastofnun hans varð gjaldþrota. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Í kjölfar sakfellingar Keatings var McCain, ásamt fjórum öðrum öldungadeildarþingmönnum, rannsakaður af siðgæðisnefnd þingsins. Niðurstað nefndarinnar var sú að allir hefðu þingmennirnir haft óeðlileg afskipti af málinu en McCain þó síst. Hann var þó gagnrýndur í niðurstöðu nefndarinnar fyrir dómgreindarskort.
McCain hefur sjálfur sagt málið hafa verið mestu mistök ævi sinnar en í umræddum tölvupósti er staðhæft að hann hafi reynt að koma sér undan því að ræða málið í kosningabaráttunni. Þá segir að í ljósi aðstæðna í fjármálaheiminum sé málið mikilvægt og að almenningur eigi rétt á því að heyra afframgöngu McCain í því.
Sarah Palin, varaforsetaefni McCain, sakaði Obama um vinskap við hryðjuverkamann um helgina og vísaði þar til tengsla hans við Bill Ayers, prófessor við háskólann í Illinois sem á sínum yngri árum var félagi í samtökunum Weather Underground.