Hætta á hruni við Upprisukirkjuna

Frá páskamessu í Upprisukirkjunni
Frá páskamessu í Upprisukirkjunni Reuters

Varað hefur verið við því að Deir al-Sultan klaustrið sem stendur á þaki Upprisukirkjunnar  (Holy Sepulchre) í Jerúsalem sé að hruni komið. Kirkjan og klaustrið standa á þeim stað þar sem þjóðsagan segir að krossfesting Krists og upprisa hafi átt sér stað. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz. 

Mikill fjöldi fólks sækir kirkjuna daglega og er talið að hrun klaustursins geti valdið slysum á fólki. Þá er talið að hrun þess gæti valdið miklum skaða á kirkjunni, sem skipt er upp á milli kirkjudeilda. Kaþólska kirkjan, gríska rétttrúnaðarkirkjan og armenska rétttrúnaðarkirkjan eru þeirra stærstar en auk þeirra hafa eþíópíska kirkjan, Koptakirkjan og sýrlenska rétttrúnaðarkirkjan aðstöðu þar. 

Ísraelsk yfirvöld samþykktu árið 2004 að greiða viðgerðir á klaustrinu en vegna deilna eþíópísku kirkjunnar, sem rekur klaustrið, og Koptakirkjunnar, sem krefst eignaréttar yfir því, hefur ekkert verið gert í málinu.

Ísraelsk yfirvöld hafa sett það sem skilyrði fyrir viðgerðum á fornum kirkjubyggingum í landinu að samstaða sé um þær á meðal ólíkra kirkjudeilda  

Eþíópískir munkar búa í 26 herbergjum í Deir al-Sultan klaustrinu en auk þeirra herbergja eru tvær kapellur, klausturgarður og fjörur önnur herbergi í byggingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka