Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, kynnti í kvöld björgunaraðgerðir stjórnvalda til að vernda ítalska banka og innistæður sparifjáreigenda fyrir fjármálakreppunni sem nú geisar í heiminum. Hann segir að ríkið sé reiðubúið að kaupa hluti í bönkum sem standa höllum fæti. Ríkið muni hins vegar ekki hafa atkvæðisrétt á hluthafafundi.
Berlusconi boðaði ríkisstjórnina í dag til neyðarfundar til að ræða áhrif alþjóðlegu fjármálakreppunnar í landinu. Hann segir að fjármálaráðuneytið muni brátt grípa til aðgerða og kaupa hluti í bönkunum. Ríkið mun hins vegar ekki geta skipt sér af því hverjir stjórna bönkunum.
„Stjórn bankanna verður áfram í stjórn einkaaðila,“ sagði Giulio Tremonti, fjármálaráðherra Ítalíu, í sjónvarpsávarpi. „Enginn, og þá sérstaklega ekki ríkisstjórnin, hefur nokkurn áhuga á því að skipta út einkaaðilum í bankageiranum.“
Berlusconi bætti því við að ítalskir bankar búi ekki við lausafjárskort og að innistæður ítalskra sparifjáreigenda séu tryggar.
Ítalska fréttastofan ANSA greindi frá því fyrr í dag að ríkisstjórnin gæti mögulega ákveðið að setja til hliðar 20 til 30 milljarða evra, sem yrðu notaðar til að styrkja bankana lendi þeir í erfiðleikum með að standa skil á greiðslum.
Þessi sjóður myndi annað hvort hjálpa bönkunum að auka við lausafjárstöðu sína eða þá hann yrði notaður til að kaupa hluti í bönkum sem eru að verða gjaldþroa.