Fjármálakreppan og stríðsreksturinn í Írak voru helstu umræðuefnin í kappræðum forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum sem fram fóru í gærkvöldi. Fjórar vikur eru til kosninga, og sýna kannanir að Barack Obama hefur nauma en sífellt tryggari forystu á John McCain.
Fréttaskýrendur segja hvorugan frambjóðandann hafa haft afgerandi sigur í gærkvöldi, þeir hafi að mestu endurtekið það sem þeir sögðu í fyrstu kappræðunum, sem fram fóru í síðasta mánuði.