Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, á að hafa tjáð forystumönnum á sviði viðskipta og kaupsýslu að viðhorf íslenskra stjórnvalda til þeirra fjarmálaerfiðleika sem hafi skapast séu algjörlega óviðunandi. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Brown hefur sagt að bresk stjórnvöld séu að íhuga hvort þau eigi að fara í mál við íslenska ríkið ef engin lausn finnst á bankadeilunni. Hann fullyrti, að reynt hefði verið að flytja peninga til Íslands og bresk stjórnvöld væru að reyna að frysta eignir íslenskra fyrirtækja í Bretlandi.
Mikið uppnám er í Bretlandi eftir að í ljós kom að fjölmargar sveitarstjórnir höfðu lagt fjármuni inn á reikninga hjá íslenskum bönkum í Bretlandi. Segir Sky fréttastofan, að sveitarstjórnirnar kunni að hafa tapað samtals allt að 800 milljónum punda, jafnvirði 150 milljarða íslenskra króna.
Í sameiginlegri yfirlýsingu bresku ríkisstjórnarinnar og samtaka breskra sveitarstjórna segir að sveitarfélög, sem lent hafi í verulegum erfiðleikum vegna fjárfestinga í íslenskum bönkum, muni fá viðeigandi aðstoð.
Brown sagði í viðtali við Sky News, að málið væri á ábyrgð íslenskra stjórnvalda.