Todd Palin svarar fyrir sig

Sarah og Todd Palin með dóttur sinni Piper.
Sarah og Todd Palin með dóttur sinni Piper. AP

Staðhæft er í skjölum sem lögð hafa verið fram vegna rannsóknar á afskiptum Söruh Palin, varaforsetaefni bandarískra repúblíkana, af atvinnumálum fyrrum mágs hennar og yfirmanns hans, að hún hafi ekki haft bein afskipti af málinu. 

Þar kemur einnig fram að eiginmaður hennar Todd Palin, hafi margsinnis farið fram á það við opinbera embættismenn að Mike Wooten, fyrrum mági Palin, yrði sagt upp störfum í lögreglunni.

Palin sætir nú rannsókn vegna ásakana um að hún hafi misnotað vald sitt er hún lét reka fyrrum yfirmann Wooten. Segist hann hafa verið rekinn úr starfi þar sem hann hafi neitað að láta undan þrýstingi og reka Wooten.

Fréttaskýrendur telja að það sem fram kemur í gögnunum muni á vissan hátt styrkja málsvörn Palin en einnig vekja upp spurningar um hlutverk eiginmanns hennar.

„Ég hef heyrt gagnrýni á það að ég sé of tengdur störfum konunnar minnar,” segir í yfirlýsingu Todd Palin, vegna málsins. „Við konan mín erum mjög náin. Við erum bestu vinir hvors annars. Ég hef aðstoðað hana í störfum hennar eins og ég hef getað og hún hefur hjálpað mér.”

Þá staðhæfir hann að Wooten hafi hótað fjölskyldu Palin og kúgað hana og að sjálfur hafi hann leitað allra leiða til að koma því á framfæri hvernig maður Wooten væri. Todd segist hins vegar hafa fallist á að láta málið niður falla eftir að eiginkona hans sagði honum að gera það.

„Það vita það allir sem þekkja Söruh að það er hún sem er ríkisstjórinn og að það er hún sem stjórnar,” skrifar hann.

„Ég afsaka mig ekki fyrir að hafa reynt að vernda fjölskyldu mína og vilja vekja athygli á því óréttlæti sem fólst í því að ofbeldisfullur lögreglumaður fengi að halda skildi sínum.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert