Palin misnotaði vald sitt

Sarah Palin.
Sarah Palin. AP

Fullyrt er í skýrslu, sem ríkisþing Alaska sendi frá sér í gærkvöldi, að Sarah Palin, ríkisstjóri og varaforsetaefni bandarískra Repúblikana, hafi misnotað vald sitt þegar hún beitti embættismenn þrýstingi til að fá þá til að reka fyrrum mág sinn úr starfi sem lögreglumaður. 

Í skýrslunni, sem er 263 blaðsíður, segir Steve Branchflower, sem stýrði rannsókninni, að Palin hafi brotið siðareglur opinberra embættismanna. 

Branchflower segir, að Palin hafi leyft Todd eiginmanni sínum að nota ríkisstjóraskrifstofurnar og önnur úrræði, sem hún hafði sem ríkisstjóri, til að beita embættismenn þrýstingi um að reka  Mike Wooten úr lögreglustarfi skömmu áður en Wooten skildi við yngri systur Palin.

Rannsókn Branchflowers hófst eftir að Palin ákvað í júlí sl. að reka háttsettan embættismann úr starfi hjá Alaskaríki. Embættismaðurinn fullyrti, að ástæða uppsagnarinnar hefði verið sú að hann neitaði að reka Wooten.  

Palin lýsti því upphaflega yfir að hún myndi aðstoða við rannsóknina en neitaði síðar að bera vitni eftir að John McCain valdi hana sem varaforsetaefni sinnt í lok ágúst. Sagði Palin, að pólitík væri farin að setja of mikinn svip á málið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert