Stjórnarandstaðan í Simbabve segir að Robert Mugabe, forseti landsins, hafi stefnt nýlegu samkomulagi um þjóðstjórn í mikla hættu með því að úthluta flokki sínum, ZANU-PF, mikilvægustu ráðuneytin.
Hermt er að Mugabe hafi meðal annars ákveðið að ZANU-PF haldi ráðuneytum, sem stjórna hernum, lögreglunni og öðrum öryggissveitum. Ráðherrar flokksins eiga einnig að fara með utanríkismál, dómsmál og málefni fjölmiðla.
Talsmaður Lýðræðishreyfingarinnar, flokks stjórnarandstöðuleiðtogans Morgans Tsvangirai, sagði að stjórnarandstaðan gæti ekki samþykkt ákvörðunina. „Þetta er til marks um hroka ZANU-PF sem stefnir samningnum í hættu,“ sagði hann.