Haider ók langt yfir hámarkshraða

Kerti og mynd af Jörg Haider í ráðhúsinu í Klagenfurt …
Kerti og mynd af Jörg Haider í ráðhúsinu í Klagenfurt í dag. Reuters

Rannsóknarnefnd umferðarslysa í Austurríki segir, að stjórnmálamaðurinn Jörg Haider, sem lést í umferðarslysi í gærmorgun, hafi ekið langt yfir hámarkshraða þegar bíll hans fór út af veginum í suðurhluta landsins.

Lögregla, sem rannsakað hefur slysavettvanginn, segir að hraðamælirinn í VW bílnum, sem Haider ók, hafi fests á 142 km hraða á klukkustund. Hámarkshraði á vegarkaflanum þar sem slysið varð, er 70 km á klukkustund. Sagði Gottfried Kranz, saksóknari, að hraðakstur virðist vera aðalorsök slyssins.

Haider, sem var 58 ára, var fylkisstjóri Carinthiafylkis og leiðtogi Framtíðarbandalagsins, nýs stjórnmálaflokks yst á hægri væng austurrískra stjórnvalda.

Að sögn austurrískra fjölmiðla hafði Haider verið á næturklúbbi áður en hann hélt heim á embættisbíl sínum, nýjum VW  Phaeton V6. Bíllinn fór út af veginum og valt nokkrar veltur. Haider slasaðist alvarlega og lést þegar verið var að flytja hann á sjúkrahús.

Flak bílsins, sem Jörg Haider ók í fyrrinótt.
Flak bílsins, sem Jörg Haider ók í fyrrinótt. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert