Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna og Hillary Clinton, sem sóttist eftir að verða forsetaefni demókrata í forsetakosningunum í haust, komu í fyrsts sinn saman fram á fundi til stuðnings Barack Obama, forsetaefni demókrata, í Scranton í Pennsylvaniu í gær. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
„Þessar kosningar eru of mikilvægar í sögunni til að sitja hjá,” sagði Hillary. „Það þurfti demókrata í embætti forseta til að hreinsa upp eftir síðasta Bush forseta og það þarf demókrata að halda í embætti forseta til að hreinsa upp eftir þennan Bush. Það ætti enginn að efast um það. Við höfum gert það áður og við munum gera það aftur. Bandaríkin munu enn á ný rísa úr ösku Bush."
Clinton-hjónin hafa ekki komið saman fram á kosningafundi frá því Hillary lýsti sig sigraða í slagnum um útnefningu forsetaefnis demókrata.
Mjög þykir hafa sigið á ógæfuhliðina í kosningabaráttu John McCain, frambjóðanda repúblíkana, að undanförnu og hefur hann ítrekað verið sakaður um kynþáttafordóma. Var til dæmis til þess tekið er hann sagist ætla að hýða innistæðulausum yfirlýsingum Obama, í síðustu viku.