Ný skoðanakönnun Washington Post og ABC sjónvarsstöðvarinnar sýnir forsetaframbjóðanda demókrata, Barack Obama, sem 10% forskot á keppinautinn John McCain eða 53% gegn 43%.
Efnahagsumrótið hefur greinilega gert John McCain erfitt fyrir og Obama var í sóknarhug í dag þegar hann boðaði sérstaka aðgerðaráætlun til aðstoðar millistétt Bandaríkjamanna með það að markmiði að auka enn á forskotið áður en kemur að síðasta sjónvarpseinvíginu milli frambjóðendanna seinna í vikunni.
Slakar efnahagshorfur í Bandaríkjunum hafa verið meginmál kosningabaráttunnar að þessu sinni og óttinn jókst einungis í síðustu viku þegar verð hlutabréfa féll um 20% og tók með sér í fallinu milljarða dala í eftirlaunagreiðslum. Tugir þúsund Bandaríkjamanna hafa þegar misst heimili sín vegna greiðsluþrots og atvinnuleysi stígur hratt.
McCain, frambjóðandi repúblikana, þykir hafa verið seinheppinn þar sem hann hefur reynt að fóta sig í gegnum fárviðri efnahagslífsins og viðurkenndi í gær, sunnudag, að efnahagsmálin væru að skaða kosningabarátu hans.
„Efnahagsmálin hafa verið okkur erfið í síðustu viku og jafnvel vikuna þar á undan,“ sagði McCain, „ en síðustu daga höfum við verið að koma til baka vegna þess að fólk vill reynslu, það vill þekkingu og það vill framtíðarsýn. Við færum Bandaríkjamönnum slíkt.“