Talsmaður sómölsku sjóræningjanna sem halda úkraínska flutningaskipinu Faína með vopnafarm, þar á meðal 33 skriðdreka, skammt fyrir utan borgina Hoboyo, segir sjóræningjana íhuga að lengja þann frest sem þeir hafa gefið áður en þeir eyða skipinu. Krefjast þeir 20 milljóna Bandaríkjadala í lausnargjald. Höfðu þeir hótað því að eyðileggja skipið í kvöld eða nótt ef ekki verði farið að kröfum þeirra.
Sameinuðu þjóðirnar skilgreina nú hafið úti fyrir strönd Sómalíu sem hættulegustu siglingaleið heims vegna sjóránanna. Alger upplausn hefur ríkt í sjálfu landinu í 17 ár.
Talið er að vopnin hafi átt að fara til Kenýa, einnig er hugsanlegt að áfangastaðurinn hafi verið Suður-Súdan.