Tilvonandi tengdasonur ekki þvingaður til neins

Levi Johnston og Bristol Palin
Levi Johnston og Bristol Palin AP

Levi Johnston, tilvonandi tengdasonur Söruh Palin, varaforsetaefni bandarískra repúblikana, hefur greint frá því að hann hafi ekki verið beittur neinum þrýstingi af hálfu Palin-fjölskyldunnar. Sögusagnir hafa verið á kreiki um að hann hafi verið þvingaður til að trúlofast hinni sautján ára Bristol Palin, sem á von á barni þeirra.

„Ekkert af þessu er satt,” segir Johnston sem er átján ára. „Við elskum  hvort annað. Við viljum giftast hvort öðru og það er það sem við munum gera." Þá segir hann kosningastjóra Palin hafa ráðlagt sér að ræða ekki við fjölmiðla en að hann hafi viljað koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

„Við höfum lengi ætlað okkur að ganga í hjónaband, það tengist ekki barninu á nokkurn hátt,” segir hann. „Það hefur verið ætlunin frá upphafi.” 

Johnston segir þungun Bristol hafa komið þeim mjög á óvart en að þau séu tilbúin til að takast á við þá ábyrgð sem fylgi foreldrahlutverkinu. „Við erum tilbúin í þetta. Ég hlakka til að eignast mitt fyrsta barn. Það verður mikil vinna en við ráðum við það," segir hann. 

Þá segir hann að von sé á barninu þann 18. desember og að hann hafi hætt í menntaskóla eftir að í ljós kom að það væri væntanlegt. Einnig segir hann undirbúning vegna brúðkaupsins hafinn og að það muni fara fram næsta sumar.

Johnston segist að sjálfsögðu ætla að kjósa McCain og tilvonandi tengdamóður sína en er hann var spurður um Barack Obama, móframbjóðanda McCain, segir hann: „Ég veit ekkert um hann. Hann virðist vera góður náungi. Ég kann vel við hann.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert