Móðir unglingspilts í Bandaríkjunum ók í 12 klukkutíma til að komast til Nebraska þar sem hún skildi hann svo eftir. Skv. gildandi lögum í ríkinu mega fullorðnir einstaklingar skilja börnin sín eftir á ríkissjúkrahúsum. Þá kveða lögin á um að það megi ekki höfða mál á hendur foreldrunum fyrir að yfirgefa þau með þessum hætti.
Yfirmaður heilbrigðis- og mannúðarmála í Nebraska hefur hins vegar sagt að það að losa sig við börn með þessum hætti sé afar óviðeigandi leið fyrir fjölskyldur til að kljást við þau vandamál sem geti komið upp við umönnun barna.
Drengurinn sem um ræðir er 13 ára gamall og frá Michigan. Hann er 18. barnið sem hefur verið skilið eftir í ríkinu eftir að lögin öðluðust gildi, segir á fréttavef breska ríkisútvarpsins.
Hann er annar unglingurinn, sem býr ekki ríkinu, sem hefur verið skilinn eftir. Fjórtán ára gamalli stúlku frá Iowa var skilað aftur heim eftir að amma hennar og afi skildu hana eftir í Nebraska.