Sýrland og Líbanon taka upp stjórnmálasamband

Stjórnmálasambandi hefur formlega verið komið á á milli Sýrlands og Líbanons en formlegt stjórnmálasamband hefur aldrei fyrr verið í gildi á milli ríkjanna frá því þau hlutu sjálfstæði frá Frakklandi á fimmtá áratug síðustu aldar. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz. 

Fram kemur í ríkisfjölmiðlum í Sýrlandi að Bashar Assad Sýrlandsforseti hafi undirritað stjórnskipun um að stjórnmálasambandi verði komið á en samkomulag náðist um það fyrr á þessu ári. Ekki hefur verið greint nánar frá því í hverju samkomulagi felst en samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytis Sýrlands mun sendiráð landsins opna í Beirút fyrir lok þessa árs.

Fulltrúar Vesturlanda og stjórnarandstöðunnar í Sýrlandi hafa lengi krafist þess að Sýrlendingar viðurkenni sjálfstæði Líbanons með því að taka upp stjórnmálasamband við landið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka