Staða Brown styrkist mjög

Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, ræðir við fréttamenn.
Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, ræðir við fréttamenn. Reuters

Svo virðist sem ímynd Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, sé mjög að styrkjast á alþjóðavettvangi í kjölfar þess hvernig hann hefur tekið á fjármálakreppunni á undanförnum dögum. Er hann jafnvel sagður hafa verið í fararbroddi við að snúa við óheillavænlegri þróun og að leiðtogar Bandaríkjanna og Evrópuþjóða líti nú til hans í leit að fordæmi.

Ný frönsk skoðanakönnun sýnir að Frakkar hafa meiri trú á því að Brown geti bjargað fjármálakerfi heimsins en Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti og í ritstjórnargrein franska blaðsins Le Monde er hann jafnvel kallaðir evrópsk ofurhetja. 

Paul Krugman, nýr Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, lofar einnig Brown í grein sem birt er í New York Times og segir aðgerðir hans hafa sett tóninn fyrir björgunaraðgerðir á heimsvísu.  

Brown þykir hafa sýnt mikið áræði er hann ákvað að leggja 37 milljarða punda í björgunaraðgerðir vegna breskra banka en vinsældir hans nú þykja sérstaklega athyglisverðar í  ljósi þess að mjög hefur dregið úr fylgi Verkamannaflokks hans frá því hann tók við forsætisráðherraembættinu og forystu flokksins af Tony Blair í júní á síðasta ári. hefur þetta bæði komið fram í skoðanakönnunum og hverjum  ósigurinn á fætur öðrum í sveitastjórna- og millikosningum í Bretlandi.  

Í síðasta mánuði voru líkurnar á því að Brown yrði áfram við völd í Bretlandi í árslok taldar 2-1  hjá veðbönkunum William Hill og Paddy Power en nú eru þær taldar 8-1. „Það hvernig hann hefur tekið á fjármálakreppunni hefur styrkt stöðu hans,” segir Darren Haines, talsmaður  Paddy Power. „Bara á síðasta mánuði hefur honum tekist að snúa hlutunum algerlega við. Honum hefur tekist að bægja þeim frá sem veðjuðu gegn honum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert