Svo virðist sem ímynd Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, sé mjög að styrkjast á alþjóðavettvangi í kjölfar þess hvernig hann hefur tekið á fjármálakreppunni á undanförnum dögum. Er hann jafnvel sagður hafa verið í fararbroddi við að snúa við óheillavænlegri þróun og að leiðtogar Bandaríkjanna og Evrópuþjóða líti nú til hans í leit að fordæmi.
Paul Krugman, nýr Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, lofar einnig Brown í grein sem birt er í New York Times og segir aðgerðir hans hafa sett tóninn fyrir björgunaraðgerðir á heimsvísu.
Í síðasta mánuði voru líkurnar á því að Brown yrði áfram við völd í Bretlandi í árslok taldar 2-1 hjá veðbönkunum William Hill og Paddy Power en nú eru þær taldar 8-1. „Það hvernig hann hefur tekið á fjármálakreppunni hefur styrkt stöðu hans,” segir Darren Haines, talsmaður Paddy Power. „Bara á síðasta mánuði hefur honum tekist að snúa hlutunum algerlega við. Honum hefur tekist að bægja þeim frá sem veðjuðu gegn honum."