John McCain, forsetaframbjóðanda bandarískra repúblíkana virðist hafa mistekist það ætlunarverk sitt að sækja á forskot Baracks Obama, frambjóðanda demókrata í síðustu sjónvarpskappræðum þeirra fyrir bandarísku forsetakosningarnar í nótt.
Fréttaskýrandinn Roger Simon segir á vefsíðunni Politico að í stað þess að bæta stöðu sína hafi McCain gert illt verra með árásum sínum á Obama. Árásir hans hafi stundum verið beinar, stundum lúmskar og stundum háðskar og að umfram allt hafi þær verið linnulausar.
Obama hafi hins vegar svarað hverri og einni þeirra án þess að missa nokkurn tíma stjórn á sér og þetta hafi leitt til þess að Obama hafi komið mun betur út.McCain varði einnig þá stuðningsmenn sína sem lýst hafa kynþáttafordómum á kosningafundum hans.
„Ég vil segja það svona almennt að ég er stoltur af þeim sem koma á kosningafundi mína. Ég mun ekki líða það að nokkur haldi því fram að þetta fólk sé nokkuð annað en ættjarðarvinir.”„Hvað annað,” svaraði Obama. „Mér er sama þótt ég verði fyrir árásum næstu þrjár vikurnar. Það sem bandaríks þjóðin hefur ekki efni á er efnahagsleg óstjórn næstu fjögur árin.”
Töluvert hefur verið skrifað um kosningaaðferðir McCain í bandarískum fjölmiðlum að undanförnu og hafa rök verið færð fyrir því að hinn harkalegi tónn sem hann hafi notað gegn Obama hafi unnið hvað mest gegn honum sjálfum í kosningabaráttunni. Þá hefur verið bent á það að sá McCain sem Bandaríkjamenn sjái nú minni vart á nokkurn hátt á þann milda mann sem þeir hafi séð er hann barðist fyrir því að verða forsetaefni repúblíkana fyrir átta árum.
Í könnun sem framkvæmd var fyrir CNN strax eftir kappræðurnar sögðust 58% þeirra sem horfðu á þær að Obama hefði staðið sig betur en 31% sagði McCain hafa haft yfirhöndina. Í könnun CBS var hlutfallið 52% gegn 22% Obama í vil.