Aukið traust á efnahagsstjórn Browns og Darlings

Brown og Darling njóta mests trausts.
Brown og Darling njóta mests trausts. Reuters

Verkamannaflokkurinn hefur nærri tvöfaldað forystu sína á Íhaldsflokkinn hvað varðar traust almennings á getu flokkanna til að leiða þjóðina út úr fjármálakreppunni, samkvæmt nýrri skoðanakönnun.

Samkvæmt frétt í The Guardian kemur könnunin á sama tíma og David Cameron gerði í ræðu harða hríð að Gordon Brown fyrir gjaldþrota stefnu í efnahagsmálum. Mikið lof hefur hins vegar verið borið á Brown á sama tíma af stjórnmálaleiðtogum, fréttaskýrendum og efnahagssérfræðingum víða um heim hvernig tekið hefur verið á efnahagskreppunni í Bretland.

Tilraun David Cameron til að koma sér í sviðsljósið á kostnað forsætisráðherrans fór þó fyrir lítið því að á sama tíma var birt skoðanakönnun stjórnmálaþáttar á BBC2 sem sýndi Íhaldsmenn vanta 11% upp á að ná Verkamannaflokknum í trausti almennings á getu flokkana til að glíma við efnahagsmálin.

Af þeim þúsundum sem spurðir voru í könnuninni reyndust 42% telja Brown og fjármálaráðherra hans, Alistair Darling, líklegasta til að stýra efnahagsmálunum í gegnum samdráttarskeiðið.

Fylgi leiðtoga Verkamannaflokksins jókst um 2% frá fyrri könnun meðan traustið á Cameron og skuggaráðherra hans í efnahags- og fjármálum, Georg Osborne, féll um 3 prósentustig í 31%.

Nick Clegg, leiðtogi Frjálsra demókrata og talsmaður hans í efnahagsmálum, Vinchent Cable, hækkuðu um 2 prósentustig í 7% meðan einn af hverjum 5 eða 19% gátu ekki gert upp hug sinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert