Bandarísk stórblöð styðja Obama

Washington Post og Los Angeles Times, tvö af áhrifamestu dagblöðum í Bandaríkjunum, lýstu í dag yfir stuðningi við Barack Obama, forsetaframbjóðanda demókrata, og sögðu hann hafa ótvíræða leiðtogahæfileika þrátt fyrir litla reynslu á stjórnmálasviðinu. 

Washington Post sagðist styðja Obama án nokkurs hiks vegna skynsemi hans og pólitískra hæfileika og sagði hann hafa alla burði til þess að verða frábær forseti.

Þá sagði blaðið, að það hefði gert þessa ákvörðun enn auðveldari, að John McCain, frambjóðandi repúblikana, hefði valdið vonbrigðum í kosningabaráttunni og að auki hefði hann sýnt af sér ábyrgðarleysi með því að velja Söruh Palin, sem varaforsetaefni sitt, en hún sé alls ekki tilbúin til að verða forseti.

Blaðið hefur stutt Al Gore og John  Kerry í síðustu forsetakosningum en í þeim báðum fór George W. Bush með sigur af hólmi.

Los Angeles Times lýsti nú síðdegis yfir stuðningi við Obama í leiðara, sem birtur var á vefsíðu blaðsins. Sagði þar að Obama væri leiðtogi, sem sýndi af sér yfirvegaða rósemi og glæsileika undir álagi.

„Obama er menntaður og mælskur, yfirvegaður og æsandi, stöðugur og þroskaður. Hann er fulltrúi þjóðarinnar eins og hún er og eins og hún stefnir að," segir blaðið.

Það gagnrýni einnig McCain fyrir að velja Palin sem varaforsetaefni og segir að valið hafi verið snjallt herkænskubragð en jafnframt lýst ábyrgðarleysi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert